Ótrúlegt en satt

Ótrúlegt en satt þá er kominn föstudagur á ný. Þessi vika rann í gegn eins og smartís í lófa Jésú eftir tréatvikið. Ég sit hérna algjörlega pakksaddur eftir að hafa snætt rúmlega mánaðarskammt rússneskra sjómanna af pizzu. Eg er alveg sprunginn...rauðvínslöggur í glasi nær þó að lina þjáningarnar eitthvað. Börnin mín sitja hérna rétt hjá mér og glugga á skjáinn. Í kvöld er Disney sjóv eins og flesta aðra föstudaga hér í henni Danmörku. Ef mér skjátlast ekki þá hefur Disney sjóv verið hérna í Rúvinu þeirra dana, DR1, síðan fyrir daga Disney sjálfs...væntanlega heitið Frederik sjov eða Egon sjov...á eftir að fá þetta staðfest

Síðustu vikuna hef ég bara verið hreint út sagt súr og svekktur út í lífið...verið með afbrigðum latur...já meira en venjulega...og hreinlega varla haft mig fram úr rúminu. Ítalíudæmið hefur verið að rokka inn og út. Björgvin félagi minn þarna úti hefur verið í sömu stöðu og ég og bíður eftir svari. Ég er líklega alveg búinn að ganga fram af honum því ég er búinn spyrja manngreyjið á hverjum degi hvort að hann viti eitthvað meira um málið. Jæja, ég er að reyna að spá ekki of mikið í þetta og hugsa þannig að ef þetta kemur þá kemur þetta, annars ekki.
Ég er að öðru leyti að sækja um vinnu hist og her og það hlýtur að koma að því að fólk sjá hvurslags dásemdar manneskja ég er.

Á morgun er laugardagur og þá er "Fastelavnsfest" eða Öskudagshátíð. Hún er haldin þessa helgi þar sem vetrarfrí er eftir næstu helgi. Alexander fer sem Svarthöfði, Matthías verður íklæddur sjóræningjabúningi og Dísa verður kvenútgáfa af sjálfum skrattanum...veit ekki hvað fékk hana til að snú á þá braut.

Jæja, kvöldið búið vera ágætt. Saddur, fínn og glaður atvinnuleysingi kveður í bili.

Arnar Thor

Ummæli

Vinsælar færslur